Brexit-flokkurinn vann sigur í Evrópuþingskosninum á Bretlandi í maí. Hann er meðal annars skipaður fyrrverandi félögum í Breska sjálfstæðisflokknum (Ukip) eins og Nigel Farage og öðrum andstæðingum Evrópusambandsins.
Nýtt Evrópuþing kom saman til fundar í Strasbourg fyrsta skipti í dag. Risu þingmenn þá á fætur undir „Óði til gleðinnar“ eftir Bethoven, einkennisstefi Evrópusambandsins, sem saxófónkvartet lék. Þá sneru þingmenn Brexit-flokksins bakinu við flutningnum.
Antonio Tajani, fráfarandi forseti Evrópuþingsins, skammaði þingmennina fyrir virðingarleysi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
„Það er til marks um virðingu að rísa úr sætum. Það þýðir ekki að þú deilir endilega skoðunum Evrópusambandsins. Jafnvel þegar þú hlýðir á þjóðsöng annars lands rístu á fætur,“ sagði Tajani.
Fulltrúar Frjálslyndra demókrata frá Bretlandi mættu í stuttermabolum sem á stóð „Stöðvum Brexit“.
The @LibDems MEPs are gathering now for the first Strasbourg session with their trademark “b****cks to #Brexit” t-shirts. pic.twitter.com/pvdlNqL5W8
— Adam Fleming (@adamfleming) July 2, 2019
Erfiðlega hefur gengið fyrir leiðtoga Evrópusambandsins að koma sér saman um hvernig skuli velja í æðstu embætti þess. Rætt er um að Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, verði forseti framkvæmdastjórnarinnar og Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, verði forseti leiðtogaráðsins.
Þá hefur Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, verið nefnd sem næsti seðlabankastjóri Evrópu.