Innlent

Sakaður um að hafa ítrekað kúgað konu sína til kynferðislegra athafna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn er ákærður fyrir fjölmörg brot gagnvart eiginkonu sinni og tveimur stjúpdætrum.
Maðurinn er ákærður fyrir fjölmörg brot gagnvart eiginkonu sinni og tveimur stjúpdætrum. vísir/getty
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni sem grunaður er um fjölmörg brot gagnvart eiginkonu sinni og tveimur stjúpdætrum síðastliðin sex ár. Hann er ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot, stórfelldar ærumeiðingar, brot á nálgunarbanni og hótanir.

Þvingaði konuna til að fróa sér nokkrum sinnum í viku

Maðurinn er sagður hafa ítrekað, eða allt að nokkrum sinnum í viku, þvingað konuna til þess að fróa honum, með hótunum og annars konar ólögmætri nauðung. Hótanirnar sneru meðal annars að dætrum konunnar, og er hann sagður hafa hótað því að stunda kynlíf með þeim, eða henda þeim út af heimilinu, ef hún sinnti honum ekki kynferðislega. Þá hafi hann haft uppi sömu hótanir þegar hann þvingaði konuna til þess að setjast klofvega ofan á sig og hafa samræði við sig.

Maðurinn er einnig sakaður um að hafa beitt stjúpdætur sínar kynferðislegri áreitni, meðal annars með því að senda þeim fjölmörg smáskilaboð þar sem hann viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð. Mörg skilaboðanna innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð, að því er segir í ákærunni. Aldur stúlknanna er ekki tiltekinn í ákærunni.

Braut ítrekað nálgunarbann

Maðurinn var úrskurðaður í nálgunarbann í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. mars síðastliðinn, sem í kjölfarið var staðfest af Hæstarétti. Hann braut hins vegar nálgunarbannið samdægurs með því að setja sig í samband við mæðgurnar og með því að fara inn í anddyrið á stigagangi þeirra.

Í ákærunni segir að maðurinn hafi hringt 566 sinnum í heimasíma konunnar á tímabilinu 7. mars til 22. mars. Þá hafi hann sent stjúpdætrum sínum á tímabilinu 7. mars til 1. júní samtals 636 smáskilaboð.

Mæðgurnar fara fram á alls átta milljónir króna í bætur. Þá fer héraðssaksóknari fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×