Körfubolti

Lárus frá Þór til Þórs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lárus stýrði Þór Ak. um tveggja ára skeið.
Lárus stýrði Þór Ak. um tveggja ára skeið. vísir/bára

Lárus Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Þórs Þ. í körfubolta. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið. Auk þess að þjálfa meistaraflokk karla mun Lárus þjálfa yngri flokka Þórs. Þetta kemur fram á Hafnarfréttir.is.

Í gærkvöldi tilkynnti Þór Ak. að Lárus væri hættur þjálfun karlaliðs félagsins eftir tveggja ára starf. Hann kom liðinu upp úr 1. deildinni og hélt því svo í Domino's deildinni.

Lárus er nú tekinn við öðru Þórsliði, í Þorlákshöfn. Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfaði Þór á síðasta tímabili. Liðið endaði þá í 9. sæti Domino's deildarinnar.

„Mér líst rosalega vel á að taka við Þórsliðinu. Liðið er búið að vera stöðugt í efstu deild síðustu ár með góðan kjarna af heimastrákum og mikill metnaður í stjórn til þess að ná árangri. Með samstillu átaki bæjarbúa þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við getum búið til mjög skemmtilega stemmningu í körfuboltabænum Þorlákshöfn,“ sagði Lárus í samtali við Hafnarfréttir.

Auk Þórs hefur Lárus þjálfað meistaraflokk karla hjá Hamri og Breiðabliki. Hann er Rangæingur og lék lengst af ferilsins með Hamri.

Þór Þ. hefur leikið samfleytt í efstu deild frá tímabilinu 2011-12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×