Erlent

Ákæra klerk fyrir manndráp vegna fjölmennrar samkomu

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmaður borgarinnar spautar sótthreinsiefni á götur Delhi.
Starfsmaður borgarinnar spautar sótthreinsiefni á götur Delhi. EPA/STR

Yfirvöld Indlands hafa ákært múslímskan klerk fyrir manndráp vegna samkomu sem hann hélt í síðasta mánuði. Fjölmörg smit af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur, hafa verið rakin til samkomunnar. Þúsundir sóttu samkomuna sem haldin var í Delhi.

Í fyrstu var klerkurinn Muhamad Saad Kandhalvi, ákærður fyrir brot á reglum um fjöldasamkomur, en seinna meir var hann ákærður fyrir að valda dauða fólks. Hann gæti verið dæmdur í allt að tíu ára fangelsi.

Búið er að loka höfuðstöðvum samtakanna Tablighi Jamaat í Delhi og hafa þúsundir sem sóttu fundi þar verið skipaðir í sóttkví.

Samkvæmt frétt Reuters segja embættismenn á svæðinu að í byrjun apríl hafi mátt reka þriðjung þeirra tæpu þrjú þúsund tilfella sem búið var að staðfesta til samkomu Tablighi. Síðan þá hefur bætt verulega í staðfestan fjölda smita. Þau eru nú 12.380 og minnst 414 hafa dáið.

Á miðvikudaginn var búið að staðfesta 1.561 smit í Delhi og þar af eru 1.080 rakin til samkoma klerksins.

Sjá einnig: Óttast að kórónuveiran fari eins og eldur í sinu um stærsta fátækrahverfi Indlands

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, tilkynnti í vikunni að útgöngubann þar í landi yrði framlengt til 3. maí.

Embættismenn segjast ekki vera að beita samfélag múslima órétti og telja sig verða að refsa samtökunum og forsvarsmönnum þeirra því þeir hafi hagað sér með mjög óábyrgum hætti.

Tablighi Jamaat eru umfangsmikil samtök með starfsemi í um 80 ríkjum.

Samtökin eru einnig talin ábyrg fyrir fjölda smita í Pakistan, þar sem til stóð að halda sambærilega samkomu. Henni var frestað en þó ekki fyrr en þúsundir höfðu þegar komið saman. Svipaða sögu er að segja frá Malasíu og öðrum ríkjum í Suðaustur-Asíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×