Innlent

Þyrla Gæslunnar lenti við Sand­skeið vegna bilunar í smur­kerfi gír­kassans

Atli Ísleifsson skrifar
Áhöfn þyrlunnar var við æfingar í nágrenninu þegar bilunarinnar varð vart.
Áhöfn þyrlunnar var við æfingar í nágrenninu þegar bilunarinnar varð vart. Aðsend

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-EIR lenti í varúðarskyni á flugvellinum við Sandskeið í gær eftir að aðvörunarljós gaf til kynna að olíuþrýstingur á aðalsmurkerfi gírkassa vélarinnar hafði fallið niður fyrir eðlileg viðmið.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að varasmurkerfi vélarinnar, sem er af gerðinni Airbus H225 Super Puma, hafi áfram virkað eðlilega en af öryggisástæðum hafi þótt vissara að skoða vélina staðnum.

Sjá einnig: Skipt um gírkassa og snúningsmótor í þyrlu Landhelgisgæslunnar

Áhöfnin hafi verið við æfingar í nágrenninu þegar bilunarinnar varð vart og héldu flugvirkjar Landhelgisgæslunnar á Sandskeið þar sem þeir hafa unnið að viðgerð og bilanagreiningu.

Ásgeir segir að við skoðun hafi komið í ljós að um smávægilega bilun sé að ræða. „Við vonumst til að hafa komist fyrir bilunina og ef allt gengur að óskum er stefnt á að fljúga vélinni til Reykjavíkur síðar í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×