Enski boltinn

Solskjær: Forréttindi að fá að þjálfa þennan hóp

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Solskjær gefur skipanir á hliðarlínunni í dag.
Solskjær gefur skipanir á hliðarlínunni í dag. vísir/getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, var sigurreifur í leikslok eftir að hafa séð sína menn leggja erkifjendurna í Manchester City að velli í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Það er mikilvægt fyrir félagið að vinna Man City á heimavelli. Það hefur ekki gerst í svolítinn tíma svo þetta var stór leikur fyrir okkur,“ sagði Solskjær.

City var með boltann stærstan hluta leiksins en Anthony Martial og Scott McTominay sáu um markaskorun sem skilaði Man Utd 2-0 sigri.

„Þú verður að verja markið þitt vel þegar þú mætir Man City og við gerðum það. Við höfum svo mikinn hraða í skyndisóknunum okkar og þannig erum við alltaf ógnandi,“ sagði Solskjær en Man Utd hefur ekki tapað í síðustu tíu leikjum sínum.

„Það eru forréttindi að fá að þjálfa þennan hóp sem við höfum. Þeir gefa algjörlega allt sem þeir eiga og eru tilbúnir að læra. Mér finnst við vera að bæta okkur en við erum enn í 5.sæti og við þurfum að koma okkur nær Chelsea og Leicester. Við megum ekki slaka á,“ segir Solskjær.


Tengdar fréttir

Enn er Manchester rauð

Manchester United vann nágranna sína í Manchester City öðru sinni á þessari leiktíð í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×