Enski boltinn

Liverpool getur orðið enskur meistari áður en liðið spilar næst í deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp og lærisveinar hans gætu fagnað enska meistaratitlinum upp í stúku á laugardaginn.
Jürgen Klopp og lærisveinar hans gætu fagnað enska meistaratitlinum upp í stúku á laugardaginn. Getty/Visionhaus
Tap Manchester City á móti Manchester United í gær þýðir að Liverpool liðið er komið enn nærri fyrsta enska meistaratitlinum í þrjátíu ár.

Liverpool vann sinn leik um helgina en City tapaði sem þýðir að forskotið jókst um þrjú stig. Liverpool hefur nú 25 stiga forystu á Manchester City þegar City liðið á aðeins eftir tíu leiki.

Það eru því enn bara 30 stig eftir í pottinum hjá lærisveinum Pep Guardiola. Ekkert annað lið í ensku úrvalsdeildinni getur náð Liverpool að stigum.





Manchester City liðið á eftir að spila tvo deildarleiki áður en kemur að næsta deildarleik Liverpool sem er á móti Everton á Goodison Park á mánudaginn eftir rúma viku.

Manchester City fær Arsenal í heimsókn á miðvikudaginn og tekur síðan á móti Burnley á laugardaginn.

Tapi City liðið báðum þessum leikjum þá verður Liverpool enskur meistari í sófanum á laugardaginn en tapi Manchester City öðrum leiknum þá getur Liverpool tryggt sér titilinn með sigri á heimavelli nágranna sinna í Everton eftir nákvæmlega eina viku.

Liverpool vantar bara þessi sex stig og skiptir þar engu hvort þau koma í gegnum stigum sem Liverpool liðið fær eða í gegnum stig sem Manchester City missir af.

Næstu leikir Liverpool á eftir Everton leiknum eru á móti Crystal Palace á heimavelli og á móti Manchester City á útivelli. Liverpool fær því mörg tækifæri til að tryggja það að leikmenn Manchester City þurfi að standa heiðursvörð fyrir leik City og Liverpool þann 5. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×