Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur ákveðið að fresta Borgarafundi sem fara átti fram í Efstaleiti annað kvöld um óákveðinn tíma. Ástæðan er kórónuveiran og útbreiðsla hennar. Þessa breytingu má nú þegar sjá á dagskrá sjónvarpsins þar sem heimildarþáttur um kosti linsubauna kemur í stað borgarafundarins.
Fundurinn hafði verið auglýstur töluvert í sjónvarpinu með skilaboðum á íslensku, ensku og pólsku. Innflytjendamál hafa verið í brennidepli undanfarnar vikur, ekki síst í ljósi ákvörðunar að senda hælisleitendur til Grikklands eins og til stendur að gera.
Ástæða frestunarinnar er kórónuveiran en til skoðunar var hjá fréttastofunni að færa fundinn úr húsi. Tíminn til að útfæra þá lausn reyndist of skammur.
Samkvæmt upplýsingum Vísis eru miklar ráðstafanir hjá Ríkisútvarpinu að gæta öryggis í útvarpshúsinu. Þannig hafi ekki verið talið ráðlagt að fá þann fjölda fólks, sem fylgir borgarafundum, inn í Efstaleitið.
Áður hafa farið fram borgarafundir um loftslagsmál og geðheilsu ungs fólks.