Fótbolti

FIFA frestar leikjum í undankeppni HM sem áttu að fara fram á sama tíma og umspilið á Laugardalsvelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baráttan um að komast til Katar er hafin en leikjaskipulagið mun breytast í Asíu.
Baráttan um að komast til Katar er hafin en leikjaskipulagið mun breytast í Asíu. Getty/Matthew Ashto
Kórónuveiran er farin að hafa áhrif á undankeppni næsta heimsmeistaramóts í fótbolta sem fer fram í Katar eftir rúm tvö ár.

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur tekið þá ákvörðun að fresta leikjum í undankeppni Asíu fyrir HM í fótbolta 2022. Ástæðan er útbreiðsla kórónuveirunnar.

Leikir í tveimur landsleikjagluggum hefur verið frestað en það eru allir leikir sem áttu að vera spilaðir á bilinu 23. til 31. mars og á bilinu 1. til 9. júní.





FIFA hefur þannig frestað leikjum sem eiga að fara fram á sama tíma og umspilsleikurinn við Rúmeníu á Laugardalsvellinum.

FIFA heldur samt glugganum opnum fyrir því að sumir þessara leikja geta farið fram með leyfi FIFA og asíska knattspyrnusambandsins. Samböndin eiga líka eftir að funda betur um framhaldið.

Leikir í forkeppni Ólympíuleikanna í Tókýó munu þó fara fram fyrir utan einn leik í undankeppni kvenna en leikur Kína og Kóreu verður seinkað til landsleikjagluggans 1. til 10. júní.

FIFA og AFC munu jafnframt halda áfram að meta stöðuna í sameiningu vegna útbreiðslu COVID-19 og það á eftir að koma í ljós hvort frekari frestanna á undankeppni HM 2022 er þörf. Samböndin segja í yfirlýsingu á heimasíðu FIFA að markmiðið sé alltaf öryggi og góð heilsa þeirra einstaklinga sem koma að leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×