Erlent

Haraldur Noregs­konungur út­skrifaður af sjúkra­húsi en á­fram í veikinda­leyfi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning við afhendingu friðarverðlauna Nóbels í ráðhúsinu í Osló þann 10. desember síðastliðinn.
Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning við afhendingu friðarverðlauna Nóbels í ráðhúsinu í Osló þann 10. desember síðastliðinn. Rune Hellestad/Getty Images.

„Hans hátign, konungurinn, var í dag útskrifaður af Ríkisspítalanum. Konungurinn er áfram í veikindaleyfi.“ 

Svo hljóðar stutt tilkynning norsku konungshallarinnar í dag. Vika er liðin frá því Haraldur Noregskonungur var lagður inn á sjúkrahúsið í Osló. Var það vegna svima, að því er þá kom fram í tilkynningu hirðarinnar, sem jafnframt tók fram að enginn alvarlegur sjúkdómur hefði greinst. 

Vegna veikindanna gat konungurinn ekki tekið þátt í opnunarathöfn Johan Sverdrup-olíusvæðisins í Norðursjó í síðustu viku, né verið viðstaddur fyrsta leik Noregs í Evrópukeppninni í handbolta í Þrándheimi á föstudag. 

Noregskonungur var einnig frá störfum í desember, þá vegna veirusýkingar. Hákon krónprins gegnir konunglegum skyldum í veikindaforföllum föður síns.


Tengdar fréttir

Noregskonungur áfram á sjúkrahúsi

Haraldur Noregskonungur verður áfram á sjúkrahúsi í Osló að minnsta kosti fram yfir helgi. Í tilkynningu hirðarinnar í fyrradag hafði verið vonast til að konungur yrði útskrifaður í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×