Íslenski boltinn

Þór frestar Goðamótunum vegna kórónuveirunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frá vítaspyrnukeppni í leik Akureyrarliðanna KA og Þórs.
Frá vítaspyrnukeppni í leik Akureyrarliðanna KA og Þórs. GOÐAMÓTIÐ

Þór Akureyri hefur frestað Goðamótum í 6. flokki karla og 5. flokki kvenna í fótbolta vegna kórónuveirunnar. Mótin áttu að fara fram í Boganum á Akureyri um helgina.

Í gær greindu forsvarsmenn Goðamótanna frá því að þau færu fram. Þeim hefur hins vegar snúist hugur og mótunum hefur verið frestað.

Í frétt á heimasíðu Þórs kemur fram að ákvörðunin hafi verið erfið en félagið hafi viljað axla samfélagslega ábyrgð með því að fresta mótunum.

„Sú ákvörðun að halda mótahaldi til streitu var tekin út frá okkar bestu vitund miðað við tilmæli ÍSÍ og þeirra samtali við Landlæknisembættið á fundi sem haldinn var í gær. Þeir sem að mótinu standa eru ekki sérfræðingar á þessu sviði og ekkert fordæmi er fyrir þeirri stöðu sem er uppi. Ákvörðunin var því erfið, líkt og sú ákvörðun sem hefur verið tekin nú og er endanleg,“ segir í fréttinni.

Goðamót 6. flokks karla fer fram 15.-17. maí og goðamót 5. flokks kvenna 1.-3. maí.

Um síðustu helgi var Nettómótinu í körfubolta frestað vegna kórónuveirunnar.


Tengdar fréttir

Fjölmennu Nettómóti frestað vegna neyðarstigs

Mótsnefnd Nettómótsins í körfubolta, þar sem yfir 1.300 börn og unglingar voru skráð til keppni, ákvað nú síðdegis að fresta mótinu um ótilgreindan tíma vegna kórónuveirunnar.

Goðamótin á Akureyri munu fara fram

Þórsarar á Akureyri hafa ákveðið að Goðamótin í knattspyrnu fari fram í Boganum næstu tvær helgar. Krakkar í 5. og 6. flokki í knattspyrnu flykkjast þá norður yfir heiðar þar sem keppt verður í knattspyrnu föstudag, laugardag og sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×