Innlent

Dómarar við Landsrétt fjalla áfram um gæsluvarðhaldskröfu lögreglu á morgun

Jóhann K. Jóhannsson skrifar

Landréttur hefur ekki komist að niðurstöðu vegna úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna gæsluvarðhaldi yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni sem grunaður er um kynferðis- og ofbeldisbrot gegn þremur konum. Úrskurðar er að vænta í fyrsta lagi á morgun.

Kristján Gunnar Valdimarsson var handtekinn á aðfararnótt aðfangadags og síðar sleppt en handtekinn aftur á jóladag vegna meintra kynferðisbrota, ofbeldis og frelsissviptingu gegn þremur konum. Kristján Gunnar var um jólin úrskurðaður í fjögurra daga gæsluvarðhald sem rann út 29. desember.

Þá var farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald en dómari við héraðsdóm Reykjavíkur tók sér sólarhringsumhugsunarfrest til að úrskurða.

Gæsluvarðhaldskrafa Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni var hafnað í héraðsdómi Reykjavíkur daginn fyrir gamlársdag. Síðan þá hefur hann gengið laus. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar sem tók málið fyrir í dag.

Landsréttur úrskurðaði ekki í málinu í dag en fjallað verður áfram um kröfu lögreglunnar á morgun. Þá fyrst er úrskurðar um gæsluvarðhald að vænta.

Í Fréttablaðinu í morgun var greint frá því að til greina hafi komið hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að beina því til dómara að leysa réttargæslumenn tveggja meintra brotaþola Kristjáns Gunnars frá störfum þar sem talið var að þeir hefðu brotið þagnarskyldu er þeir veittu fjölmiðlum viðtöl um rannsókn málsins en horfið var frá því. Báðir réttagæslumennirnir hafna ásökunum lögreglunnar.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu miðar rannsókn málsins áfram en er þó á viðkvæmu stigi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×