Nani, fyrrum leikmaður Man. Utd, segir að það hafi aldrei verið neitt stórmál hjá Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóra Man. Utd, að menn mættu drukknir á æfingu á nýársdegi.
Nani spilaði í sjö ár með Man. Utd en spilar nú með Orlando City í MLS-deildinni. Hann segir að þó svo Ferguson hafi verið strangur hafi hann vitað hvenær ætti að gefa mönnum smá slaka.
„Ég lenti aldrei í vandræðum og það var í góðu lagi að skemmta sér á réttum dögum. Jólin og Gamlársdagur til að mynda. Það var öllum sama um það,“ sagði Nani.
„Við gátum meira að segja mætt fullir á æfingu á nýársdegi. Stjóranum var alveg sama og þetta er sú hlið á honum sem sýndi að hann kunni að vinna með mönnum. Við skemmtum okkur bara á æfingunni.“
Nani: Ferguson var alveg sama þó menn væru fullir á æfingu á nýársdag
