Innlent

Bæði sýnin á Akureyri reyndust neikvæð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sýni úr tveimur einstaklingum á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem talið var að gætu verið smitaðir af kórónuveiru reyndust neikvæð.
Sýni úr tveimur einstaklingum á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem talið var að gætu verið smitaðir af kórónuveiru reyndust neikvæð. Vísir/Vilhelm

Sýni úr tveimur einstaklingum sem settir voru í einangrun á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna gruns um kórónuveirusmit reyndust neikvæð fyrir COVID-19 sjúkdómnum. Annar þeirra verður þó áfram í einangrun í nótt.

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu, staðfesti við Vísi að sýni úr einstaklingunum tveimur hafi reynst neikvæð fyrir COVID-19. Hann segir að þar með séu engin staðfest smit á sjúkrahúsinu og kveðst raunar ekki hafa fengið veður af neinu staðfestu smiti í héraðinu.

Hann segir að þrátt fyrir að bæði sýnin hafi reynst neikvæð hafi verið ákveðið að annar einstaklinganna verði áfram í einangrun á sjúkrahúsinu og annað sýni tekið úr honum í fyrramálið. Ástæðan fyrir því sé að erfiðlega hafi gengið að rekja sögu viðkomandi og komast að því hvort hann hafi verið í samskiptum við smitaða einstaklinga. Hann segist þó telja ólíklegt að um kórónuveirusmit sé að ræða.

Sá sem um ræðir var ekki sjúklingur á sjúkrahúsinu, heldur leitaði hann læknishjálpar með hefðbundnum boðleiðum vegna einkenna sinna og gruns um mögulegt smit. Hinn einstaklingurinn var hins vegar sjúklingur á sjúkrahúsinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×