Innlent

Ferða­lög til Dan­merkur: Bannað að gista í Köben

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hvetur fólk þá ferðamenn sem koma til Danmerkur að sækja jósku heiðarnar heim.
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hvetur fólk þá ferðamenn sem koma til Danmerkur að sækja jósku heiðarnar heim. Getty

Bannað verður fyrir þá ferðamenn sem sækja Danmörku heim í sumar að gista í Kaupmannahöfn. 

Frá þessu greindi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og dómsmálaráðherrann Nick Hækkerup á fréttamannafundi sínum í hádeginu.

„Við opnum fyrir stóran hluta ferðamennskunnar, ekki síst á jósku vesturströndinni,“ sagði Frederiksen, en lagði áherslu á takmarkanir varðandi höfuðborgina sjálfa.

Greint var frá því í hádeginu að Íslendingar megi ferðast til Danmerkur frá 15. júní.

„Ferðamenn mega ekki gista í Kaupmannahöfn og sveitarfélaginu Frederiksberg. Það er ekki hægt að ferðast til þessara tveggja sveitarfélaga en menn mega gjarnan fara þangað í dagsferðir,“ sagði dómsmálaráðherrann Hækkerup.

Í frétt DR er haft eftir dómsmálaráðherranum að ferðamenn þurfi að sýna fram á pappíra um hvar þeir ætli að gista til að hægt sé að fylgjast með að enginn gisti í Kaupmannahöfn. Þurfi þeir að sýna fram á gistingu í sex nætur hið minnsta á hóteli, tjaldsvæði eða öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×