Erlent

Frumgerð SpaceX sprakk í loft upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengingin var mikil og er sögð hafa skemmt starfsstöð SpaceX í Texas.
Sprengingin var mikil og er sögð hafa skemmt starfsstöð SpaceX í Texas.

Frumgerð fyrirtækisins SpaceX af Starship geimfarinu sprakk í loft upp eftir tilraun á hreyfli geimfarsins í Texas í gær. Þetta er fjórða frumgerð Starship sem eyðileggst en vert er að ítreka að Starship kemur ekki með nokkrum hætti að geimskoti SpaceX og NASA sem á að reyna í kvöld.

Engar fregnir hafa borist af mannskaða í sprengingunni.

Geimfarinu Starship er ætlað að flytja menn og birgðir til tunglsins og mars í framtíðinni. Samkvæmt frétt Verge hafði þessi tiltekna frumgerð komist mun lengra í þróunarferlinu en aðrar og var þetta fimmta tilraunin með hreyfil geimfarsins á nokkrum vikum. Hefði þessi tilraun heppnast, stóð til að skjóta geimfarinu á loft en þó eingöngu í litla hæð.

Elon Musk, stofnandi SpaceX, tilkynnti nýverið að hann ætlaði að leggja minni áherslu á þróun geimfarsins á næstunni og meiri áherslu á mannaðar geimferðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Til þeirra geimferða ætar SpaceX að notast við Falcon 9 eldflaugar og Crew Dragon geimför.

Hér má sjá beina útsendingu sem stóð yfir á Youtube þar sem verið var að fylgjast með tilrauninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×