LeBron James, stórstjarna Los Angeles Lakers í NBA-deildinni, segir leikmenn ekki tilbúna að gefa yfirstandandi tímabil upp á bátinn. Þetta kemur fram á vefsíðu deildarinnar.
LeBron segir að hann, liðsfélagar sínir sem og aðrir leikmenn deildarinnar vilji spila. Hann tekur þó fram að það sé ekki hægt fyrr en hægt sé að tryggja heilsu allra sem munu koma að leikjunum.
„Þetta er faraldur sem við getum ekki stjórnað,“ segir LeBron en kórónufaraldurinn hefur dregið yfir hundrað þúsund Bandaríkjamenn til dauða.
Adam Silver, framkvæmdastjóri deildarinnar, sagði þann 8. maí síðastliðinn að deildin væri að reyna finna lausn á því hvernig mætti klára tímabilið. Hefur hann talað um að deildin muni gefa út tilkynningu þann 5. júní með hvernig framhaldið verði.
Í ljósi þess að aðrar íþróttir í Bandaríkjunum virðast í þann mund að fara aftur af stað þá vill LeBron að körfuboltinn fari einnig af stað.
„Við sjáum að íþróttaviðburðir eins og UFC, fótbolti og hafnabolti eru að fara aftur af stað og við viljum einnig fara aftur á völlinn. Ég elska körfubolta og ég veit hversu mikil áhrif hann getur haft. Ég veit hvað íþróttin getur verið hvetjandi svo um leið og við getum þa´væri ég til í að fara aftur út völl.“
„Ég veit að við söknum öll körfubolta, Ég væri að ljúga ef ég segði að við gerðum það ekki,“ sagði LeBron að lokum.
Los Angeles Lakers voru á toppi Vesturdeildar þegar NBA-deildinni var frestað þann 11. mars síðastliðinn. Liðið hafði unnið 49 leiki og tapað fjórtán, aðeins Milwaukee Bucks eru með betri árangur í deildinni á þessari leiktíð.
Þá var félagið nú þegar búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Er það í fyrsta skipti síðan 2013 sem Lakers kemst í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.