Loftrýmisgæsla ítalska flughersins hefst hér á landi um miðjan júní, en hermennirnir munu fara í fjórtán daga sóttkví, læknisskoðun og skimun á herstöð áður en hingað er komið.
Þá fara þeir aftur í fjórtán daga sóttkví á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli eftir komuna til landsins. Von er á 135 ítölskum hermönnum til landsins.
Komu Ítalanna seinkaði
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að síðustu loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins hafi lokið hér á landi í byrjun apríl með brottför norska flughersins. Var gert ráð fyrir að ítalski flugherinn kæmi í kjölfarið en vegna aðstæðna var komu hans seinkað.
„Nú er verkefnið aftur komið á dagskrá og er ráðgert að loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefjist að nýju um miðjan júní með komu flugsveitar ítalska flughersins. Áætlað er að 135 liðsmenn flughersins taki þátt í verkefninu auk starfsmanna frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center). Flugsveitin kemur til landsins með sex F-35 orrustuþotur og eru þoturnar væntanlegar í annarri viku júnímánaðar.
Undirbúningshópur ítölsku flugsveitarinnar er kominn til landsins. Fyrir komu Ítala fóru þeir í læknisskoðun og skimum, síðan í 14 daga sóttkví á herstöð. Að lokinni 14 daga sóttkví fara þeir aftur læknisskoðun og skimun. Ítölsk yfirvöld gefa út vottorð fyrir alla liðsmenn áður en þeim er heimilt að fara með herflugi til Íslands. Við komuna til Íslands fara þeir aftur í 14 daga sóttkví innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmd sóttvarnaráðstafana er unnin í samráði við Embætti landlæknis.“
Aðgflugsæfingar á Akureyri og Egilsstöðum
Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum bæði á Akureyri og Egilsstöðum dagana 10. til 19. júní.
„Framkvæmd verkefnisins verður með sama hætti og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland. Flugsveitin verður staðsett á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki eftir miðjan júlí. Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmdina í samvinnu við Isavia,“ segir í tilkynningunni.