Hollenski framherjinn Geoffrey Castillion mun að öllum líkingum ganga til liðs við sitt fyrrum félag Fylki á komandi dögum. Þetta staðfesti Hrafnkell Helgason, formaður meistaraflokksráðs félagsins, í samtali við Fótbolti.net fyrr í dag.
Castillion var frábær í liði Fylkis á síðustu leiktíð þar sem hann var á láni frá FH. Skoraði hann tíu mörk í 19 leikjum fyrir Árbæinga. Eftir að Pepsi Max deildinni lauk þá gekk hollenski framherjinn í raðir Persib Bandung í Indónesíu.
Hins vegar hefur deildarkeppninni í Indónesíu verið frestað og þar af leiðandi gæti Castillion snúið aftur til Fylkis.
Íþróttadeild Vísis spáir því að Fylkir lendi í 8. sæti í Pepsi Max deild karla í sumar.
„Deildin í Indónesíu hefst líklega í september en það er ekki staðfest. Hann hefur áhuga á að koma og spila. Honum leið vel hjá okkur í fyrra. Við erum bjartsýnir að þetta gangi eftir,“ sagði Hrafnkell í viðtali við Fótbolti.net.
Alls hefur Castillion skorað 28 mörk í 53 leikjum hér á landi en hann hefur leikið með Víking Reykjavík, FH og Fylki. Hann er sem stendur í Hollandi með fjölskyldu sinni og eru Fylkismenn að vinna í því að fljúga honum hingað til lands sem fyrst.