Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, deildi í gær bréfi þar sem fyrrverandi lögmaður hans kallar mótmælendur hryðjuverkamenn og skrifar fjölda ósanninda og dylgjur. Bréfið er skrifað af John Dowd, fyrrverandi lögmanni Trump, og virðist hafa verið sent Jim Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra, sem gagnrýnt hefur forsetann á undanförnum dögum.
Mattis gagnrýndi Trump sérstaklega fyrir að hóta því að siga hernum á mótmælendur í Bandaríkjunum og fyrir það að láta reka friðsama mótmælendur frá Lafayettetorgi við Hvíta húsið svo hann gæti haldið myndatöku þar.
Mattis sagði Trump vera vísvitandi að tvístra þjóðinni með orðum sínum og aðgerðum.
„Donald Trump er fyrsti forsetinn í minni lífstíð sem reynir ekki að sameina bandarísku þjóðina, þykist ekki einu sinni reyna það. Í staðinn reynir hann að sundra okkur. Við erum að verða vitni að afleiðingum þriggja ára þessara meðvituðu tilrauna. Við erum að verða vitni að afleiðingum þriggja ára án þroskaðrar forystu,“ skrifaði Mattis í yfirlýsingu.
Mattis sagði af sér sem varnarmálaráðherra í desember 2018 í mótmælaskyni, eftir að Trump ætlaði að draga herlið Bandaríkjanna frá Sýrlandi og yfirgefa sýrlenska Kúrda, bandamenn þeirra gegn Íslamska ríkinu. Þrátt fyrir að Mattis hafi hætt, hefur Trump ítrekað haldið því fram á undanförnum dögum að hann hafi rekið hershöfðingjann.
Sjá einnig: Fyrrverandi ráðherra sakar Trump um að sundra þjóðinni
Í bréfi Dowd gagnrýnir hann Mattis, sem er fyrrverandi herforingi í Landgönguliði Bandaríkjanna, fyrir að láta ömurlega stjórnmálamenn nota sig og orðspor hans, sem hann hafi unnið sér inn með blóði og innyflum ungra landgönguliða.
Hann segir að mótmælendurnir á Lafayettetorgi hafi ekki verið friðsamir mótmælendur. Þeir séu hryðjuverkamenn sem noti haturfsulla og aðgerðarlausa nemendur til að brenna og eyðileggja. Þá hafi þeir verið að vanvirða og veitast að lögregluþjónum þegar þeir voru að undirbúa útgöngubann.
Um 30 mínútur voru í að útgöngubann tæki gildi þegar mótmælendurnir voru reknir á brott.
Dowd vísar einnig til þess að George Bush eldri, hafi boðað út herinn vegna óeirðanna í Los Angeles í kjölfar Rodney King réttarhaldanna. Hann segir Trump eiga við óeirðir í fjölda borga og að „snjókorna ríkisstjórar og borgarstjórar pissi á sig“ af ótta við að beita afli gegn mótmælendum.
Fjölmargir úr báðum stjórnmálaflokkum Bandaríkjanna hafa gagnrýnt Trump vegna myndatökunnar og ummæla hans um herinn. Í umfjöllun Politico segir að nokkrir mótmælendur frá Lafayettetorgi hafi höfðað mál gegn Trump og sakað hann um að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til að mótmæla friðsamlega.