Katri Kulmuni hefur sagt af sér sem fjármálaráðherra Finnlands. Hún ákveður að hætta í kjölfar fjölmiðlaumræðu í tengslum við greiðslu ráðuneytis hennar á háum reikningum til ráðgjafastofu sem veitti ráðherranum þjálfun í framkomu og ræðuflutningi.
Ráðherrann boðaði óvænt til blaðamannafundar í dag þar sem hann tilkynnti um afsögnina. Fundurinn var stuttur og var fréttamönnum ekki gefinn kostur á að spyrja spurninga.
Kulmuni sagðist þó ætla að halda áfram að gegna embætti formanns Miðflokksins og að flokkurinn muni áfram eiga aðild að ríkisstjórninni. Flokkurinn muni á næstu dögum velja nýjan fjármálaráðherra.
Kulmuni útskýrði á fréttamannafundinum að hún hafi sem ráðherra óskað eftir þjálfun í að verða betri ræðumaður. Því hafi hún beðið ráðuneytið að kanna hvort hún gæti fengið þjálfun í að koma fram opinberlega. Hún hafi þó ekki verið meðvituð um að slíkt myndi hafa lagaleg vandkvæði í för með sér.
Ráðherrann sagði að háir reikningar ráðgjafafyrirtækisins hafi komið sjálfri sér á óvart, en að hún sé reiðubúin að axla ábyrgð og hafi því ákveðið að segja af sér.
Reikningur ráðgjafafyrirtækisins Tekirs nam 48 þúsund evrum, sem samsvarar rúmum sjö milljónum króna.