Joseph Maldonado-Passge, betur þekktur sem Joe Exotic, er í hæsta máta óánægður með að Carole Baskin, erkióvinur hans og forstjóri dýraverndunarsamtakanna Big Cat Rescue, hafi fengið yfirráð yfir dýragarði sem eitt sinn var í eigu Exotic. Hann segir um að ræða „launráð“ sem verði að stöðva.
Dómari úrskurðaði í byrjun vikunnar að Baskin skyldi eignast dýragarðinn auk eigna tengdum honum. Þau Joe Exotic og Baskin urðu heimsfræg á einni nóttu eftir að heimildaþáttaröðin Tiger King, sem fjallar um ævi, störf og ástir tígrisdýrahirða í Bandaríkjunum, var frumsýnd á Netflix fyrr á árinu.
Exotic afplánar nú fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að fá leigumorðingja til að ráða áðurnefnda Baskin af dögum. Hann segir í yfirlýsingu sem birt var fyrir hans hönd í fyrradag að úrskurður dómarans sé „enn eitt tilfinningalega höggið“ sem ríður yfir hann, mann sem „þegar er í viðkvæmu ástandi“. Exotic hafi verið í einangrun í fangelsi síðastliðna þrjá mánuði og geti þannig ekki haldið uppi málsvörn.
"The ruling is yet another emotional blow to an already fragile Joe, who has spent the past 3 straight months in solitary confinement."
— Joe Exotic (@joe_exotic) June 4, 2020
Joe has issued his official response to a Carole Baskin taking the zoo. He is suffering, help us end it. #helpfreejoe https://t.co/7K6CHyBaEP
„Við erum meðvituð um nú sé tímabært að biðja fyrir réttlæti fyrir fjölskyldu George Floyd, sem og að bundinn verði endi á kerfisbundna kynþáttafordóma, en á sama tíma verðum við að svara fyrir launráð Carol Baskin áður en þau ná óhindruð fram að ganga,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þó að þessar fréttir séu þungbærar ætlum við ekki að sætta okkur við ósigur. Á sama tíma og þessi skilaboð eru rituð er lögmannateymi Joe að fara fram á áfrýjun og samfélagsmiðlateymi hans fær almenning með okkur í lið.“
Forsaga málsins er sú að Baskin stefndi Joe Exotic fyrir brot á höfundarréttarlögum árið 2013. Svo fór að Exotic var gert að greiða Baskin tæpa milljón Bandaríkjadali. Hann reiddi þó upphæðina aldrei fram.
Jeff Lowe, auðmanni sem bregður einnig fyrir í þáttunum og farið hefur með rekstur dýragarðsins síðan Exotic var dæmdur í fangelsi, hefur með dómsúrskurðinum verið gert að fjarlægja öll dýr úr garðinum innan 120 daga.