Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann á þrítugsaldri fyrir að hafa sparkað í andlit lögreglumanns og hótað honum lífláti við handtöku. Málið er þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Atvikið átti sér stað í Grafarvogi í Reykjavík síðasta sumar þar sem ákærði veitti „kröftuga mótspyrnu“ þar sem verið var að handtaka hann.
Í ákæru segir að lögreglumaðurinn hafi hlotið eymsli í andliti, áverka á báðum hnjám og tognun á vinstra hné. Þá hafi maðurinn hótað lögreglumanninum lífláti með orðinum: „Djöfull skal ég finna þig og drepa þig“.
Þá hafi ákærði hótað sama lögreglumanni líkamsmeiðingum eftir að á lögreglustöð var komið þar sem hann sagði „Ég skalla þig“ og í kjölfarið gert tilraun til að skalla lögreglumanninn.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.