Erlent

Þúsundir minnast Geor­ge Floyd

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fólk stendur í röðum til að votta George Floyd virðingu sína í Houston.
Fólk stendur í röðum til að votta George Floyd virðingu sína í Houston. Mario Tama/Getty Images

Búist er við að þúsundir sæki minningarathöfn um George Floyd, Bandaríkjamann sem lögregluþjónn er sakaður um að hafa myrt í Minneapolis í síðasta mánuði. Lögregluþjónninn mætti fyrir dóm í dag.

Lík Floyd er nú í Houston en hann varði æskuárunum í þessari fjölmennustu borg Texasríkis. Almenningi hefur verið boðið að votta honum virðingu sína á milli klukkan fimm og ellefu í kvöld og sögðust borgaryfirvöld búast við um tíu þúsund gestum.

Dauði Floyd hefur vakið mikla reiði í Bandaríkjunum og reyndar víðs vegar um heiminn. Fjölmargir hafa safnast saman til þess að mótmæla lögregluofbeldi og krafið stjórnvöld um aðgerðir.

Meirihluti borgarstjórnar Minneapolis, þar sem Floyd lést, hét því í gærkvöldi að lögreglan í borginni yrði lögð niður. Embættið hefur ítrekað verið sakað um kynþáttamismunun og ofbeldisverk á undanförnum árum. Ekki liggur fyrir hvernig löggæslu verður háttað í framtíðinni en til stendur að leita tillagna hjá almenningi.

Fulltrúar Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings brugðust við stöðunni í dag og kynntu nýtt frumvarp um breytingar á starfsemi lögreglunnar í landinu. Frumvarpið gengur meðal annars út á að auðvelda það að sækja lögregluþjóna til saka. Þá yrðu hálstök einnig bönnuð.

Derek Chauvin, maðurinn sem er sakaður um að hafa myrt Floyd, mætti fyrir dóm í dag rétt eftir klukkan 18 að íslenskum tíma. Hann er sakaður um morð af annarri gráðu og á yfir höfði sér allt að fjörutíu ára fangelsisdóm.


Tengdar fréttir

Vilja auka eftirlit og breyta verkferlum lögreglu

Demókratar á bæði fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem þeir eru í meirihluta, og öldungadeildinni ætla að leggja fram frumvarp sem snýr að umfangsmiklum breytingum á eftirliti með störfum lögreglu og verkferlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×