Erlent

Meira en tvær milljónir tilfella í Bandaríkjunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá neðanjarðarlestarstöð í New York-borg. Ekkert ríki hefur farið verr út úr faraldri kórónuveirunnar en New York.
Frá neðanjarðarlestarstöð í New York-borg. Ekkert ríki hefur farið verr út úr faraldri kórónuveirunnar en New York. David Dee Delgado/Getty

Meira en tvær milljónir manna hafa nú greinst með kórónuveiruna sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19 í Bandaríkjunum. Hvergi í heiminum hafa fleiri tilfelli veirunnar verið staðfest.

Rúmlega 400 þúsund smit hafa greinst í New York-ríki, og meira en 30 þúsund látið lífið af völdum Covid-19. Það er langtum meira en í nokkru öðru ríki, en næst á eftir kemur nágrannaríkið New Jersey, með tæp 168 þúsund tilfelli og rúmlega 12 þúsund dauðsföll. Heildartala látinna í Bandaríkjunum er nú 115.137, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskóla.

Lítillega hefur hægt á faraldrinum vestanhafs síðan hann stóð sem hæst, en þó hafa greinst um á bilinu 19 til 20 þúsund smit síðustu daga. Hæsta tala nýsmita í Bandaríkjunum sást þann 24. apríl, en þá greindust yfir 39 þúsund á einum sólarhring.

Víða um Bandaríkin er þegar farið að slaka á samfélagslegum hömlum sem komið var á til að sporna við útbreiðslu veirunnar. Til að mynda opnaði ströndin á Miami í gær, í fyrsta sinn síðan snemma í maí. Þá gera rekstraraðilar Disneylands í Kaliforníu ráð fyrir því að skemmtigarðurinn opni aftur í júlí. Garðurinn lokaði í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×