Erlent

Ekkja Li Wenliang eignast son

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnisvarði um Li Wenliang.
Minnisvarði um Li Wenliang. EPA/YFC CHINA OUT

Fu Xuejie, ekkja kínverska læknisins Li Wenliang, sem fyrstur benti á faraldur kórónuveirunnar, hefur fætt son. Ekkjan hefur birt mynd af kornabarninu og segir drenginn síðustu gjöf látins eiginmanns síns.

Li var handtekinn og hnepptur í varðhald eftir að hafa varað við því að faraldur gæti verið í uppsiglingu. Sökuðu yfirvöld hann um að breiða út ósannindi og var hann þvingaður til að skrifa undir yfirlýsingu um að hann væri að ljúga.

Aðrir læknar sem Li hafði rætt við og höfðu sömuleiðis reynt að vara við veirunni urðu einnig fyrir refsingum.

Læknirinn lést síðan sjálfur úr Covid-19 sjúkdómnum.

Hann var síðar heiðraður og hafinn til vegs og virðingar eftir mótmæli almennings á meðferðinni á honum. Fyrir átti læknirinn annan son með eiginkonu sinni og segir hún með myndinni af nýburanum: Eiginmaður minn, sérðu okkur af himnum?

BBC vitnar í kínverskan miðil sem ræddi við ekkjuna þar sem hún sagðist dauða Li hafa reynt verulega á sig andlega og að hún hafi þurft að vera lögð inn á sjúkrahús um tíma til að tryggja öryggi ófædds barns hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×