Erlent

Rúmlega hundrað manns handteknir í London

Atli Ísleifsson skrifar
Til átaka kom á Trafalgar-torgi í London í gær.
Til átaka kom á Trafalgar-torgi í London í gær. AP

Lögregla í Bretlandi handtók rúmlega hundrað manns í mótmælaaðgerðunum í London í gær. Þetta staðfestir yfirmaður Lundúnalögreglunnar í samtali við breska fjölmiðla.

BBC greinir frá því að mótmælendur, margir hverjir sem tilheyra hópum hægri öfgamanna, hafi ráðist að lögreglu eftir að þeir höfðu safnast saman til að standa vörð um styttur.

Þá er rannsókn sögð hafin á máli þar sem maður kastaði af sér vatni við hlið minnisvarða um lögreglumanninn Keith Palmer sem dó í árás í Westminster í borginni árið 2017.

Undanfarið hefur mikið borið á því að styttur af umdeildum mönnum hafi verið felldar eða þær skemmdar. Má nefna að mótmælendur í Bristol í Englandi tóku styttu af þrælasalanum Edward Colston og vörpuðu ofan í höfn borgarinnar.

Sagt var frá því í gær að um hundruð mótmælenda, aðallega hvítir karlmenn, hafi safnast saman í kringum Cenotaph-minnismerkið um síðari heimsstyrjöldina og styttu af Winston Churchill á þinghústorginu í London. 

Lögregla reyndi eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að umræddir mótmælendur kæmust í Hyde Park, en þar fram fóru friðsamleg mótmæli gegn kynþáttafordómum.


Tengdar fréttir

Lögregla og mótmælendur tókust á í London

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í London í dag. Mótmælendurnir sem um ræðir söfnuðust saman í miðbæ borgarinnar, og sögðust vera að vernda styttur á svæðinu frá and-rasískum aðgerðasinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×