Fótbolti

Mikael og félagar tróna á toppnum á meðan hvorki gengur né rekur hjá Söndru Maríu og stöllum hennar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael í leik með U21 árs landsliði Íslands.
Mikael í leik með U21 árs landsliði Íslands. Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Mikael Anderson og félagar í danska liðinu Midtjylland tróna sem fyrr á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar eftir öruggan 2-0 sigur á AaB á útivelli í dag. Sigurinn var aldrei í hættu en Erik Sviatchenko og Joel Anderson komu gestunum yfir í fyrri hálfleik og þar við sat. 

Mikael lék allan leikinn í holunni á bakvið framherja liðsins. 

Midtjylland er sem fyrr í toppmálum á toppi deildarinnar en eftir sigur dagsins er liðið með 65 stig og þar með níu stiga forystu á FC Kaupmannahöfn sem er í öðru sæti deildarinnar.

Sandra María Jessen lék allan leikinn á miðri miðjunni hjá Bayer Leverkusen sem tapaði 1-5 fyrir Turbine Potsdam í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Leverkusen sá aldrei til sólar og var 0-4 undir í hálfleik. 

Leverkusen er í tómu tjóni og er liðið nú komið í bullandi fallbaráttu. Er liðið með 13 stig líkt og Duisburg sem situr í fallsæti. 

Ísak Bergmann Jóhannesson sat allan tímann á varamannabekk IFK Norrköping sem vann Kalmar FF 2-1 í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×