Golf

Simpson efstur eftir tvo hringi

Sindri Sverrisson skrifar
Webb Simpson einbeittur á mótinu í Suður-Karólínu.
Webb Simpson einbeittur á mótinu í Suður-Karólínu. VÍSIR/GETTY

Webb Simpson er með forystuna eftir tvo hringi á RBC Heritage mótinu í golfi í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Efsti maður heimslistans, Rory McIlroy, er enn talsvert á eftir efstu mönnum.

Simpson lék líkt og í gær á -6 höggum en hann fékk átta fugla og tvo skolla á hringnum í dag. Hann er með eins höggs forskot á Bryson DeChambeau og Corey Conners en hinn kanadíski Conners fór upp um 26 sæti í dag þegar hann lék á -8 höggum.

McIlroy átti góðan dag í dag og lék á -6 höggum en er í 41.-58. sæti eftir að hafa leikið á einu höggi yfir pari á fyrsta hringnum. Hann kom sér þó í gegnum niðurskurðinn þar sem miðað er við samtals -4 högg.

Keppni heldur áfram næstu tvo daga og er mótið í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×