Enski boltinn

Segir Arsenal-mönnum að læra að sýna auðmýkt: „Ætlaði aldrei að meiða hann“

Sindri Sverrisson skrifar
Neal Maupay fékk létt högg frá Guendouzi undir lok leiks og lá eftir.
Neal Maupay fékk létt högg frá Guendouzi undir lok leiks og lá eftir. VÍSIR/GETTY

Neal Maupay stal senunni í 2-1 sigri Brighton gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en hann skoraði sigurmarkið í blálokin og skapaði sér miklar óvinsældir með broti á Bernd Leno, markverði Arsenal.

Maupay braut á Leno undir lok fyrri hálfleiks, þegar hann hoppaði utan í Leno sem hafði gripið boltann, og var markvörðurinn borinn af velli. Talið er að hann hafi meiðst alvarlega í hné.

„Í hálfleik fór ég til Mikel Arteta [stjóra Arsenal] og baðst afsökunar. Ég ætlaði aldrei að meiða markvörðinn. Ég hoppaði upp í boltann. Ég bið liðið og hann sjálfan afsökunar. Ég hef sjálfur gengið í gegnum erfið meiðsli, það er erfitt,“ sagði Maupay eftir leik.

Leikmenn Arsenal hópuðust að honum í leikslok og létu hann heyra það, það gerði Leno líka og otaði fingri að Maupay þegar hann var borinn af velli, og Matteo Guendouzi slæmdi hendi í kvið Maupay.

Bernd Leno borinn af velli og bendir á Neal Maupay sem braut á honum.VÍSIR/GETTY

„Arsenal-menn þurfa að læra að sýna stundum auðmýkt. Þeir töluðu mikið. Þeir fengu það sem þeir áttu skilið,“ sagði Maupay, og átti við sigurmarkið sem hann skoraði. „Ég var bara að reyna að ná boltanum. Þegar hann [Leno] lenti þá sneri hann upp á hnéð. Þetta er fótbolti og menn snertast. Ég ætlaði aldrei að meiða hann. Ég biðst aftur afsökunar og óska honum skjóts bata,“ sagði Maupay, sem var að sjálfsögðu ánægður með langþráðan sigur í þessum erfiða leik, og sigurmarkið sjálft:

„Það kom frábær sending inn á mig. Ég sá að markvörðurinn nálgaðist og skaut bara með vinstri. Þetta var mark og ég er svo ánægður með sigurinn því þetta er okkar fyrsti sigur á árinu. Liðið hefur lagt mjög hart að sér síðustu mánuðina,“ sagði Maupay.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×