Innlent

Ekkert lát á jarð­skjálfta­hrinunni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jarðskjálftahrinan hefur ollið miklu grjóthruni bæði á Tröllaskaga, Flateyjarskaga og í Málmey.
Jarðskjálftahrinan hefur ollið miklu grjóthruni bæði á Tröllaskaga, Flateyjarskaga og í Málmey. Vísir/Jóhann - AÐSEND/SIGURGEIR HARALDSSON

Ekkert lát er á jarðskjálftahrinunni sem hófst um hádegisbil á föstudag á Norðurlandi. Sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands hefur mælt tæplega 2000 skjálfta á svæðinu og þar af eru rúmlega 600 sem hafa riðið yfir frá miðnætti.

Rúmlega 70 þessara skjálfta hafa mælst yfir 3 að stærð og stærsti skjálftinn mældist 5,6 að stærð en hann reið yfir klukkan hálf átta í gærkvöldi. Skjálftinn fannst vel og bárust fregnir frá Ísafirði um að skjálftinn hafi fundist þar.

Jarðskjálftarnir eiga upptök sín um 20 km norðaustur af Siglufirði og hafa haldist á svipuðum slóðum frá því á föstudag. Klukkan hálf tólf í dag mældist skjálfti af stærðinni 4 sem fannst á Siglufirði og Akureyri. Um klukkan þrjú í nótt mældist skjálfti af stærðinni 4,3 og fylgdi honum eftirskjálfti af stærðinni 3,5.

Tilkynningar bárust veðurstofunni að skjálftinn í nótt hafi fundist í Eyjafirði, á Ólafsfirði og Siglufirði. Stærri skjálftar hafa fundist víða um landið, á öllu Norðurlandi og eins og fyrr sagði allt að Ísafirði. Hægt er að tilkynna um að hafa fundið fyrir skjálfta hér.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að búast megi við að skjálftahrinan haldi áfram næstu daga. Hrina af svipaðri gerð reið yfir á svæðinu árið 2012 og mældust þá sex skjálftar yfir 5 að stærð. Í hrinunni núna hafa tveir mælst yfir 5 og segir í tilkynningunni að ekki sé hægt að útiloka að þeir verði fleiri.

Þá hefur verið talsvert um grjóthrun á Tröllaskaga og Flateyjarskaga en einnig hafa borist tilkynningar um hrun í Málmey. Rafmagnsleysi var í Kelduhverfi eftir skjálftann sem reið yfir um hálf átta í gær en engar tilkynningar hafa borist um eignatjón eða slys vegna skjálftanna í gær.

Varað er við því að fólk aki um vegi sem liggja undir bröttum hlíðum á svæðinu og er fólk sem ferðast um fjöll eða brattlendi að varað við hrun- og skriðhættu. Því er ekki mælt með að fólk sé mikið til fjalla á meðan jarðskjálftahrinan er í gangi.


Tengdar fréttir

Skjálftahrinan gæti staðið yfir í nokkra daga

„Svona öflugar hrinur eiga það til að standa yfir í dálítið langan tíma, alveg þess vegna í nokkra daga,“ segir sérfræðingur Veðurstofunnar um skjálftavirkni sem gætt hefur á Norðurlandi síðasta sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×