Viðskipti erlent

Eig­andi TikTok hagnaðist um þrjá milljarða Banda­ríkja­dala á síðasta ári

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
TikTok er eitt vinsælasta snjallforritið í dag. 
TikTok er eitt vinsælasta snjallforritið í dag.  getty/Rafael Henrique

ByteDance, móðurfyrirtæki samfélagsmiðilsins TikTok hagnaðist um þrjá milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar um 416 milljörðum íslenskra króna, og fékk meira en 17 milljarða Bandaríkjadala, sem eru um 2.360 milljarðar íslenskra króna, í tekjur á síðasta ári. Fyrirtækið er því verðmætasta nýsköpunarfyrirtæki í heiminum og heldur það áfram uppgangi sínum samkvæmt frétt fjármálamiðilsins Bloomberg.

Tekjur fyrirtækisins á síðasta ári voru tvöfalt hærri en árið á undan, en árið 2018 fékk fyrirtækið um 7,4 milljarða Bandaríkjadala, eða um einn milljarður íslenskra króna, í tekjur. Ástæðuna má rekja til þess að notendum TikTok hefur fjölgað gríðarlega síðasta árið og hafa auglýsendur því leitað á þau mið.

ByteDance er kínverskt nýsköpunarfyrirtæki sem hefur að sögn Bloomberg komið verulega á óvart í geiranum og er á hraðri leið með að verða stærra en margir bandarískir tæknirisar. Um 1,5 milljarður einstaklinga notar snjallforrit ByteDance, þar á meðal TikTok, Douyin og fréttamiðilinn Toutiao.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×