Erlent

Fimm dánir eftir öflugan skjálfta í Mexíkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjálftinn mun hafa valdið miklum skemmdum í Mexíkó.
Skjálftinn mun hafa valdið miklum skemmdum í Mexíkó. AP/Luis Alberto Cruz Hernandez

Minnst fimm eru látnir eftir öflugan jarðskjálfta í Mexíkó í gærkvöldi. Skjálftinn var 7,4 að stærð og voru upptök hans í Oxacahéraði í suðurhluta landsins. Öll dauðsföllin fimm voru tilkynnt þar. Björgunaraðilar hafa þó ekki náð til nokkurra afskekktra þorpa á vesturströnd landsins og er óttast að þar gætu margir verið slasaðir.

Samkvæmt frétt BBC hafa rúmlega 400 eftirskjálftar orðið og sá stærsti 4,6 að stærð.

Skjálftarnir hafa valdið mikilli hræðslu í landinu en nokkur ár eru síðan hundruð dóu í stórum jarðskjálfta sem olli einnig miklum skemmdum. AP fréttaveitan segir að á undanförnum 35 árum hafi minnst sjö jarðskjálftar á svæðinu verið stærri en 7,0 og í þeim hafi um það bil tíu þúsund manns dáið. Flestir í skjálftanum 1985 sem var 8,0 að stærð.

Opinbert viðvörunarkerfi Mexíkó virkaði sem skildi og höfðu íbúar víða um landið tíma til að hlaupa úr húsum sínum áður en jarðskjálftinn skall á. Fregnir hafa borist af skemmdum á húsum og dó minnst einn við það að hús hrundi á hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×