Innlent

2000 megi koma saman 13. júlí og lengdur opnunartími skemmtistaða til skoðunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja það til við heilbrigðisráðherra á næstunni að takmörkunum vegna kórónuveirunnar verði næst aflétt mánudaginn 13. júlí næstkomandi. Þórólfur mun mælast til þess að fjöldamörk samkomubanns verði þá hækkuð úr 500 í 2000 manns.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar nú síðdegis. Takmörkunum var síðast aflétt 15. júní en þá máttu loks 500 manns koma saman. 

Hingað til hafa liðið um þrjár vikur milli tilslakana á takmörkunum en Þórólfur sagði að nú væri rétt að fara hægar í sakirnar. Þannig yrði hækkun á fjöldamörkum frestað til 13. júlí, þ.e. fjórum vikum eftir 15. júní. Heilbrigðisráðherra hefur hingað til samþykkt allar tillögur Þórólfs í þessum efnum.

Þá sagði Þórólfur að nú væri til skoðunar að rýmka opnunartíma vínveitingastaða en þeim hefur síðustu vikur verið gert að loka klukkan 23. Þórólfur sagði að fyrirkomulagið yrði auglýst síðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×