Lífið

Hannes Óli: „Ég er ekki einu sinni búinn að sjá myndina sjálfur“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Hannes Óli í hlutverki Olafs, hins reiða og æsta Íslendings , í nýjustu mynd Will Ferrel. 
Hannes Óli í hlutverki Olafs, hins reiða og æsta Íslendings , í nýjustu mynd Will Ferrel.  Netflix

Leikarinn Hannes Óli Ágústsson hefur vakið mikla athygli fyrir túlkun sína á hinum æsta og reiða Íslending, Olaf, í nýjustu kvikmynd Will Ferrell, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.

Karakterinn sem Hannes leikur þykir með eindæmum fyndinn og þá sérstaklega fyrir vægast sagt æstan og einlægan áhuga sinn á laginu, Jaja Ding Dong.

„Ég er reyndar ekki búinn að sjá myndina sjálfur. Er staddur í fríi á Borgarfirði eystra og með takmarkað netsamband. Við erum á litlum sveitabæ og það er búið að vera fólk í heimsókn hjá okkur svo að við höfum ekkert komist í það að horfa,“ segir Hannes í samtali við Vísi.

Það er Eurovision-kvöld framundan hjá okkur í kvöld. Við erum búin að fá aðstöðu í öðru húsi þar sem er miklu betra netsamband. Við erum meira að segja búin að fá pössun svo að við verðum bara tvö, ég og konan mín. Ég verð að viðurkenna að við erum mjög spennt. 

Hannes segist hafa fengið mikið af viðbrögðum eftir að myndin var frumsýnd á föstudag.

„Já, aldeilis. Ég er búinn að fá fullt af mjög skemmtilegum skilaboðum og mikið af peppi. Ég er auðvitað alveg í skýjunum með það“. 

Karakterinn hefur fengið mikla athygli á samfélagsmiðlum út um allan heim og nú fyrr í dag setti „tvífari“ Hannesar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, þetta á Facebook :

Hannes bjóst ekki við því að persóna hans fengi svona mikla athygli, enda átti hann upphaflega bara að vera í einu atriði. Öll skiptin sem Olaf biður hljómsveitina um að taka lagið Jaja, Ding Dong bættust við í tökum.

„ Upprunalega var ég bara með eina senu. Í handritinu er ég bara skrifaður inn í atriðið með stöðumælasektina. En ég ákvað svo sjálfur að prófa karakterinn svolítið áfram. Leikstjórinn og Will voru báðir mjög opnir með það að leyfa fólki að spinna og hlutunum svolítið að gerast,“ segir Hannes. 

Hvattur til þess að taka karakterinn alla leið

„Svo þegar ballið var í félagsheimilinu þá var verið að hvetja alla áhorfendur til að biðja um lagið, Jaja Ding Dong. Þá byrjaði ég bara að öskra og tók þetta alla leið. Þetta þótti mjög skemmtilegt og fyndið og út frá þessu var ég eiginlega hvattur til að halda áfram með hann svona“. 

„Ég var algjörlega með lagið á heilanum eftir þessar tökur enda mjög grípandi. Þetta  er svona smá Geirmundar Valtýs-stemmning,“ segir Hannes en það gæti vel verið að lagið eigi eftir að slá í gegn hjá þeim sem eru að fara í útilegu í sumar.

„Haha, hver veit? Ég veit að gítargripin eru allavega komin á netið. Svo að þetta gæti orðið næsta útilegulagið.“

Upphaflega var Hannes skrifaður inn í eina senu í myndinni. En svo ákvað hann sjálfur að prófa að taka karakterinn sinn aðeins lengra og þá var ákveðið að hafa hann í fleiri senum. Netflix

Hannes segir stemmninguna á setti hafa verið mjög góða og það hafi komið honum á óvart hvað allt var afslappað. 

„Þetta var auðvitað mjög stór framleiðsla og miðað við það, þá kom mér svolítið á óvart hvað þetta var afslappað allt. Stemmning var líka mjög góð og mikill vilji hjá fólki að prófa sig áfram, spinna og sjá hvað myndi gerast. En það er auðvitað líka það sem einkennir svolítið Will Ferrell og hans stíl.“

Will Ferrel mjög afslappaður og laus við stjörnustæla

Hannes segir frábært að vinna með Will Ferrell.

„Will er mjög skemmtilegur og afslappaður og það er mjög gaman að spjalla við hann. Hann er algjört íþróttanörd og getur talað endalaust um fótbolta. 

Hann er líka algjörlega laus við einhverja stjörnustæla svo að andrúmsloftið var alltaf gott. Þetta var bara yfir það heila mjög gefandi reynsla og það stærsta sem ég hef tekið þátt í hingað til. 

Hannes segir að hann sé sjálfur mikill aðdáandi Eurovision.

„Ég er það nefninlega. Ég er mjög mikill Eurovision-aðdáandi og fylgist alltaf með. Vinahópurinn hefur skapað sér ýmsar skemmtilegar hefðir í kringum Eurovision og við höfum mjög gaman af þessu, eins sérstakt fyrirbæri eins og keppnin er. Það eru yfirleitt einhver búningapartý og drykkjuleikir í kringum aðalkvöldið svo að við tökum þetta alla leið“. 


Tengdar fréttir

Husavik rýkur upp vinsældalistana

Lagið er ástaróður til Húsavíkur og syngja Ferrell og Sandén meðal annars á íslensku: „Vera með þér, í Húsavík við Skjálfanda, í heimabærinn minn“.

Pierce Brosnan áritaði Golden Eye tölvuleik Björns

Kvikmyndin, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, verður frumsýnd í kvöld á Netflix, en þar verður Ísland sérstaklega áberandi enda aðalpersónur myndarinnar íslenskar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.