Enski boltinn

Murp­hy baðst af­sökunar á um­mælum sínum um Liver­pool

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jordan Henderson og Joe Gomez fá heiðursvörð annað kvöld.
Jordan Henderson og Joe Gomez fá heiðursvörð annað kvöld. vísir/getty

Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður Liverpool og nú spekingur, hefur beðist afsökunar á ummælum sínum um heiðursvörðinn í enska boltanum.

Man. City mun standa heiðursvörð fyrir Liverpool á fimmtudaginn en það er fyrsti leikurinn eftir að Liverpool varð meistari.

Á talkSPORT í gær lét Murphy falla þau ummæli að þetta væri della og að Kevin De Bruyne, miðjumaður Man. City, myndi standa heiðursvörð fyrir leikmenn sem geta ekki einu sinni reimað skóna hans.

„Í gær talaði ég á Talk Sport um heiðursvörð og notaði slæmt orðaval varðandi miðjumenn Liverpool. Ég biðst afsökunar á því,“ sagði Murphy í yfirlýsingu á Instagram-síðu sinni.

„Til að undirstrika það ber ég mikla virðingu fyrir leikmönnum Liverpool og þeirra ótrúlegu afrekum síðustu tvö árin.“

Murphy sagði einnig að hann vildi ekki verða skotspónn fyrir það sem hann komi illa frá sér, sem gerist stundum.

„Ég kem þessu ekki alltaf rétt frá mér þegar ég er í sjónvarpi eða útvarpi og biðst afsökunar á því þegar það gerist ekki,“ sagði Murphy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×