Fótbolti

Ein stærstu félagsskipti Íslendinga í sögunni: „Eins og karlkyns leikmaður færi í Barcelona“

Ísak Hallmundarson skrifar

„Þetta er bara risastórt, maður óskar Söru innilega til hamingju með þetta og frábært fyrir okkur Íslendinga að eiga leikmann á þessu risastóra sviði. Þetta er besta félagslið í heimi í kvennaboltanum í dag, væri eins og einhver íslenskur karlleikmaður færi í Barcelona. Eins og Eiður smári gerði á sínum tíma,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi.

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, gekk í dag í raðir Lyon í frönsku úrvalsdeildinni. Lyon er talið besta félagslið í heimi í kvennafótbolta og hefur liðið unnið Meistaradeild Evrópu fjögur ár í röð.

Sara hefur spilað með Wolfsburg undanfarin fjögur ár og unnið bæði þýsku deildina og bikarinn öll árin hjá félaginu. Hún mætti einmitt sínu nýja félagi Lyon í úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2018. 

Þetta eru ein stærstu félagsskipti í sögu íslenskra atvinnumanna í fótbolta, á svipuðum skala og þegar Eiður Smári fór til Barcelona eins og Margrét bendir á. Allt viðtalið má sjá efst í fréttinni.


Tengdar fréttir

Gat ekki sagt nei við besta lið heims: „Finn að ég þrái meira“

„Það er auðvitað ótrúlega mikill heiður að besta lið í heimi hafi sýnt manni svona mikinn áhuga,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, sem skrifað hefur undir samning til tveggja ára við Evrópu- og Frakklandsmeistara Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×