Enski boltinn

Klopp var á­nægður með fram­lag leik­manna en setti spurningar­merki við blaða­manninn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp klessir hann við Salah eftir leikinn í gær.
Klopp klessir hann við Salah eftir leikinn í gær. vísir/getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, virtist nokkuð uppstökkur í viðtali við Sky Sports eftir útreið Englandsmeistaranna gegn Manchester City á útivelli í gær.

Liverpool var 3-0 undir í hálfleik og fékk svo eitt mark á sig í síðari hálfleik eftir að City menn höfðu staðið heiðursvörð fyrir nýkrýnda meistaranna fyrir leikinn.

Sá þýski var ekki sáttur með spurningar blaðamanns Sky Sports í leikslok og svaraði honum fullum hálsi.

„Ertu að spyrja mig? Af hverju ertu að spyrja mig hvort við áttum góð tækifæri?“ byrjaði Klopp að svara þegar hann var spurður út í það hvort liðið hafði fengið færi til þess að skora í leiknum.

„Við áttum okkar augnablik en þú horfðir á leikinn rólegur. Af hverju ertu þá að spyrja mig hvort við fengum færi? Þessi spurning gengur ekki upp.“

Næst var Klopp spurður út í framlag leikmanna sinna og hann féll ekki í gryfjuna.

„Ef þú vilt leiða þessa frétt í eitthvað sem við erum ekki að gera hér, þá endilega gerðu það. Þú ert að spyrja í annað skiptið um framlag leikmanna. Mér líkaði vel við liðið. Er það ekki frábært að annað lið getur orðið meistari þrátt fyrir að City spili svona fótbolta.“

„Leikmennirnir gáfu allt hvað þeir gátu. Þeir höguðu sér ekki eins og lið sem varð meistari í síðustu viku. Í 50-50 boltum þá voru þeir sneggri en við og í fyrsta markinu lendir Joe í kapphlaupi við Sterling. City veitir þér mörg vandamál og þeir nýta mörg sín færi. Þetta hafði einnig getað endað 5-3 en 4-0 endaði þetta og við verðum að taka því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×