Erlent

Ríkisstjórn Frakklands hættir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Emmanuel Macron Frakklandsforseti í forgrunni og  Edouard Philippe fráfarandi forsætisráðherra strýkur í gegnum skeggið. 
Emmanuel Macron Frakklandsforseti í forgrunni og  Edouard Philippe fráfarandi forsætisráðherra strýkur í gegnum skeggið.  AP/Christian Hartmann

Franska forsetahöllin greindi frá því í morgun að Edouard Philippe, forsætisráðherra landsins, hefði sagt starfi sínu lausu - rétt eins og aðrir ráðherrar landsins. Líklegt er talið að hann muni áfram gegna embættinu þangað til eftirmenn ráðherrana hafa verið skipaðir.

Engin ástæða er gefin fyrir afsögn ráðherranna í orðsendingu forsetahallarinnar en undanfarnar vikur hefur verið hvíslað um væntanlega uppstokkun í frönsku ríkisstjórninni.

Emmanuel Macron, sem féllst á starfslok ráðherranna, er sagður vilja styrkja stöðu sína fyrir næstu kosningar sem fram fara í Frakklandi eftir tvö ár. Vinsældir hans og fráfarandi ríkisstjórnar hafa dvínað að undanförnu, ef frá er talinn stuðningur við fyrrnefndan Philippe sem var talinn hafa styrkt stöðu sína eftir framgöngu hans í kórónuveirumálum.

Það kom þó ekki í veg fyrir afhroð fyrir flokk Frakklandsforseta í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru um síðustu helgi. Þar sópuðu græningjar til sín fylgi og er Macron sagður óttast að niðurstöðurnar kunni að gefa vísbendingu um niðurstöðurnar árið 2022. Frakklandsforseti og ríkisstjórnin hafa sætt aukinni gagnrýni vegna sleifarlags í loftslagsmálum.

Frakklandsforseti hafi því viljað skipta út ríkisstjórn sinni og „byrja með hreint borð“ við endurreisn fransks efnahags eftir faraldurinn, sem Macron vonar að muni auka vinsældir hans þegar fram í sækir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×