Innlent

Stór og falleg epli ræktuð á Sólheimum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Eplin á Sólheimum eru ótrúlega stór og falleg og sérstaklega góð á bragðið segja þau Guðmundur og Sigrún Elfa.
Eplin á Sólheimum eru ótrúlega stór og falleg og sérstaklega góð á bragðið segja þau Guðmundur og Sigrún Elfa. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Eplauppskera á Sólheimum í Grímsnesi ætlar að slá öll met í sumar því starfsfólkið hefur vart undan að týna eplin, sem eru lífrænt ræktuð af trjánum. Stefnt er á það að framleiða tvö til þrjú tonn af eplum á staðnum á ári eftir tvö til þrjú ár.

Það er gaman að koma í gróðurhúsið á Sólheimum þar sem eplatrén eru í ræktun, auk annarra trjáa sem gefa af sér ávexti og ber. Aldrei áður hefur verið byrjað að týna eplin af trjánum svona snemma og í sumar. Eplin er flest stór og pattaraleg, rauð og falleg.

„Þetta er allt í lífrænu ferli þannig að næsta sumar verður komin lífræn vottun frá Túni um að þetta sé lífræn framleiðsla. Við stefnum á að fylla húsið, 660 fermetra þannig að á næstu tveimur til þremur árum verðum við komin með framleiðslu upp á tvö til þrjú tonn af lífrænum ávöxtum á Sólheimum og eplapæin hérna, þau eru guðdómleg,“ segir Guðmundur Steinarsson, garðyrkjumaður á Sólheimum.

Og það er mikil eplauppskera?

„Já, já, hún hefur komið mér á óvart í sumar, ég átti ekki von á svona mörgum eplum.“

Sigrún Elfa Reynisdóttir vinnur líka í garðyrkjunni á Sólheimum.

„Já, þetta er mikið ævintýri, þetta er litla Eden eins og Guðmundur segir, það bara gaman að þessu. Eplin eru mjög stór og flott og eru að verða tilbúin til týnslu. Þetta eru íslensk epli frá A til Ö því trén eru ágrædd hér á Íslandi af Jóni Guðmundssyni á Akranesi og þetta eru bara lífræn flott epli,“ segir Sigrún Elfa hæst ánægð með vinnuna á Sólheimum.

Guðmundur segist að allt vaxi á Sólheimum enda stefni staðurinn á að framleiða tvö til þrjú tonn af eplum á staðnum á ári eftir tvö til þrjú ár, ásamt öðrum gómsætum vörum.Magnús Hlynur Hreiðarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×