Innlent

Tvær líkams­á­rásir gegn ung­mennum í nótt

Sylvía Hall skrifar
Lögregla rannsakar nú málin.
Lögregla rannsakar nú málin. Vísir/vilhelm

Lögreglunni barst tilkynning um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur skömmu eftir miðnætti. Þar hafði verið ráðist að ungum stúlkum en meintir árásaraðilar, tveir drengir og ein stúlka, höfðu yfirgefið vettvang þegar lögreglu bar að garði.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem kemur fram að málið sé í rannsókn. Forráðamenn barnanna og Barnavernd hafa fengið tilkynningu um atvikið.

Rétt fyrir klukkan hálf fjögur var svo tilkynnt um líkamsárás í Árbæ þar sem hafði verið ráðist á ungmenni. Árásaraðili hafði yfirgefið vettvang þar en málið hefur verið tilkynnt og er í rannsókn.

Önnur líkamsárás varð í miðbænum rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi þegar ráðist var á mann með eggvopni á Ingólfstorgi. Maðurinn hlaut áverka á hálsi og var fluttur til aðhlynningar á bráðadeild en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi. Skurðurinn var grunnur og því ekki talin þörf á aðgerð.

Rétt fyrir klukkan fimm í morgun var tilkynnt um líkamsárás í Hlíðahverfi þar sem maður hafði ráðist á konu og ógnað henni með eggvopni. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Klukkan hálf sex var svo tilkynnt um mann sem var að stela úr bílum í hverfi 108. Hann sagðist hafa farið í margar bifreiðar í hverfinu og tekið þaðan muni, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Maðurinn var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu.

Fjórir voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Þá voru höfð afskipti af manni í Breiðholti sem grunaður er um akstur áhrifum fíkniefna, en sá var með bifhjól á röngum skráningarmerkjum og er grunaður um nytjastuld og akstur eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×