Enski boltinn

Klopp óskaði heljarmenninu hjá Wycombe til hamingju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adebayo Akinfenwa og Gareth Ainsworth, knattspyrnustjóri Wycombe Wanderers, eftir sigurinn á Oxford United í gær.
Adebayo Akinfenwa og Gareth Ainsworth, knattspyrnustjóri Wycombe Wanderers, eftir sigurinn á Oxford United í gær. getty/Andrew Kearns

Adebayo Akinfenwa, framherjinn stóri og stæðilegi, var í skýjunum eftir að Wycombe Wanderers tryggði sér sæti í ensku B-deildinni í fyrsta sinn með 2-1 sigri á Oxford United í gær.

Akinfenwa óð á súðum í viðtali við Sky Sports eftir leikinn þar sem hann gat ekki leynt gleði sinni.

Þar hvatti Akinfenwa m.a. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, til að senda sér skilaboð. Og að sjálfsögðu gerði Þjóðverjinn það.

„Halló, stóri maður. Til hamingju. Ég horfði á leikinn en sá ekki viðtalið eftir hann. Hendo [Jordan Henderson] og strákarnir sögðu mér að hafa samband við þig á WhatsApp,“ sagði Klopp í skilaboðunum sem Akinfenwa deildi á Twitter.

„Til hamingju! Ég er nokkuð viss um að þú hefur alltaf viljað vera a.m.k. B-deildarleikmaður og nú hefur það ræst. Vel gert. Frábær, frábær sigur. Jafnvel á þessum furðulegu tímum vona ég að þú fagnir við hæfi.“

Akinfenwa er mikill stuðningsmaður Liverpool og eftir að liðið varð Englandsmeistari mætti hann í Liverpool-treyju á æfingu Wycombe. Og var sektaður fyrir það.

Fyrir fjórum árum mætti Akinfenwa í viðtal eftir að Wimbledon tryggði sér sæti í C-deildinni og sagðist vera atvinnulaus og hvatti stjóra til að hafa samband við sig á WhatsApp.

Hann fór til Wycombe og hjálpaði liðinu að komast upp í ensku B-deildina í fyrsta sinn í 133 ára sögu þess. Samningur Akinfenwas við Wycombe er að renna út og óvíst hvað tekur við hjá þessum skemmtilega framherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×