Viðskipti innlent

Öskur­her­ferð Ís­lands­stofu vekur at­hygli utan land­steinanna

Sylvía Hall skrifar
Sjö hátölurum hefur verið komið upp víðsvegar um landið. Næstu tvær vikurnar munu þeir varpa út öskri fólks sem vill losa um streitu í kórónuveirufaraldrinum.
Sjö hátölurum hefur verið komið upp víðsvegar um landið. Næstu tvær vikurnar munu þeir varpa út öskri fólks sem vill losa um streitu í kórónuveirufaraldrinum. Skjáskot

Fjallað hefur verið um íslensku markaðsherferðina Let It Out hátt í tvö hundruð sinnum í erlendum fjölmiðlum og hefur kynningarmyndband fyrir herferðina verið spilað 1,3 milljón sinnum á YouTube síðan það birtist á miðvikudag.

Í samantekt Íslandsstofu um herferðina er áætlað að umfjöllun erlendu miðlanna muni skila sér vel inn á erlendan markað og að dreifing þeirra miðla sem hafa nú þegar fjallað um herferðina nái til 590 milljón áhorfenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu.

Á meðal þeirra sem hafa fjallað um herferðina eru þátturinn Today Show í Bandaríkjunum sem nýtur mikilla vinsælda, en um 2,1 milljón Bandaríkjamanna horfa á þáttinn að jafnaði.

Þá hefur verið fjallað um verkefnið í fréttum Sky News, í útvarpsfréttum og tveimur þáttum BBC sem og í vinsælum sjónvarpsþætti á MSNBC. Ferðamiðlar á borð við Lonely Planet og Condé Nest Traveler eru einnig nefndir á nafn í samantektinni en Telegraph birti einnig myndband um verkefnið.

Alls hafa um 11 þúsund öskur verið tekin upp, en aðgerðin mun standa yfir í tvær vikur áður en hátalarnir verða teknir niður.

Hátalararnir eru staðsettir í Viðey í Reykjavík, Festarfjall við Grindavík, í nágrenni Skógafoss, skammt utan við Djúpavog, við rætur Snæfellsjökuls, við Kálfshamarsvík og við Rauðasand á Vestfjörðum. Verkefnið er sagt sækja innblástur til kenninga sálfræðinga um streitulosandi áhrif þess að öskra af öllum lífs og sálar kröftum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×