Enski boltinn

Eric Bailly út­skrifaður af sjúkra­húsi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Eric Bailly borinn af velli í gær.
Eric Bailly borinn af velli í gær. vísir/getty

Varnarmaður Manchester United, Eric Bailly, var útskrifaður strax í gær af sjúkrahúsi en hann var fluttur þangað eftir hart samstuð í undanúrslitaleik Man. United og Chelsea.

Bailly var borinn af velli eftir að hafa lent í slæmu samstuði við samherja sinn, Harry Maguire, í fyrri hálfleiknum á Wembley í gær.

Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, sagði eftir leikinn að Bailly hafi verið fluttur á sjúkrahús til þess að gangast undir helstu skoðanir vegna höfuðáverka.

Hann var síðar í gær útskrifaður en meiðslin eru ekki sögð alvarleg.

Bailly hefur verið óheppinn með meiðsli frá því að hann kom til félagsins frá Villareal árið 2016.

Hann hefur lent tvisvar í slæmum hnémeiðslum og einu sinni meiddist hann illa á ökkla.

United tapaði leiknum 3-1 og er úr leik í enska bikarnum þetta árið á meðan Chelsea mætir Arsenal í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×