Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann fyrir að tálma störf lögreglu á tólfta tímanum í dag. Sá hafði á vettvangi þar sem lögregla var að stöfum heimtað upplýsingar um mál sem var honum óviðkomandi, og lét sér ekki segjast.
Maðurinn var látinn laus, en verður þó kærður fyrir athæfið. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar um tímabilið frá klukkan 11 til 17 í dag.
Á tólfta tímanum var einnig kvartað yfir ærandi hávaða frá mótorhjólum í miðbæ Hafnarfjarðar. Einhver hjólanna voru talin hjólkútslaus, auk þess sem þeim var ekið mjög glannalega og yfir hámarkshraða. Sá sem kvartaði sagði háttsemina eiga sér stað á hverju kvöldi á svæðinu.
Þá var einni handtekinn fyrir heimilisofbeldi, en í dagbók lögreglu kemur ekki fram klukkan hvað það gerðist. Sá var látinn laus að lokinni skýrslutöku.