Enski boltinn

Ó­sáttur með að Chelsea endur­birti mynd­band af því þegar Gerrard rann: „Skortur á fag­mennsku“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Steven Gerrard svekktur.
Steven Gerrard svekktur. vísir/getty

Það muna líklega flestir knattspyrnuáhugamenn þegar Steven Gerrard rann, missti boltann til Demba Ba sem skoraði í 2-0 sigri Chelsea á Liverpool árið 2014.

Leikurinn var lykilleikur í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar en eftir leikinn hrökk allt í baklás hjá Liverpool sem endaði á því að lenda í 2. sætinu.

Þeir náðu þó að enda biðina löngu í ár og tryggja sér enska meistaratitilinn en liðið mætir einmitt Chelsea í kvöld á heimavelli sínum. Eftir leikinn fer bikarinn á loft.

Netteymi Chelsea birti tíst í gær sem fór fyrir brjóstið á einhverjum stuðningsmönnum og fyrrum leikmönnum Liverpool. Þar endurbirtu þeir myndband af því þegar Gerrard rann. Tístinu hefur nú verið eytt.

„Þvílíkur skortur á fagmennsku,“ skrifaði Stephen Warnock, sem kom í gegnum unglingastarf Liverpool og lék með liðinu þangað til hann varð 26 ára eða til ársins 2007. Hann hefur lagt skóna á hilluna í dag.

„Bara skil ekki afhverju félag myndi hegða sér svona. Mjög skrýtið, get ekki ímyndað mér að stjórinn sé ánægður með þetta,“ bætti Warnock við.

Liverpool mun lyfta enska meistaratitlinum í kvöld eftir leikinn eins og áður segir og ljóst að það verður mikið fjör á Anfield í kvöld. Spurningin er hins vegar sú; nær Chelsea að skemma partíið í annað sinn á sex árum?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×