Erlent

Breskir ráðherrar hafna ásökunum í Rússaskýrslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bresk þingnefnd telur að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Skotlands árið 2014.
Bresk þingnefnd telur að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Skotlands árið 2014. Vísir/EPA

Ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar hafna því að sannanir liggi fyrir um að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016 eða að hún hafi forðast að rannsaka slík afskipti. Þær ásakanir voru settar fram í skýrslu þingmannanefndar um áhrif Rússa í gær.

Hörð gagnrýni var sett fram á bresk stjórnvöld í skýrslu leyniþjónustu- og öryggisnefndar breska þingsins sem var birt í gær. Ríkisstjórnin hafi forðast það í lengstu lög að rannsaka hvort Rússar reyndu að hafa áhrif á tvær umdeildar þjóðaratkvæðagreiðslur, um útgönguna úr Evrópusambandinu annars vegar og sjálfstæði Skotlands hins vegar. Vísbendingar séu um slík afskipti í atkvæðagreiðslunni í Skotlandi en en hörð sönnunargögn skorti um Brexit.

Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, sagði í dag að engar sannanir væru fyrir því að Rússar hefðu haft afskipti af Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Það verða að vera einhver sönnunargögn fyrir því að það sé mál til staðar, sem er ekki,“ sagði Shapps sem hafnaði því ennfremur að breska leyniþjónustan hefði brugðist.

Í sama streng tók James Brokenshire, öryggismálaráðherra. Fullyrti hann að ríkisstjórnin hefði gripið til aðgerða til að búa sig frekar undir ógnir frá stjórnvöldum í Kreml.

„Við höfnum afdráttarlaust hugmyndum um að Bretlandi hafi gagnvert forðast að rannsaka Rússland,“ sagði Brokenshire í þingræðu í dag.

Rússnesk stjórnvöld hafna því að þau hafi reynt að hlutast til um þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi og fullyrða að þau skipti sér ekki af innanlandsstjórnmálum annarra ríkja. Bandaríska leyniþjónustan telur að rússnesk stjórnvöld hafi staðið fyrir umfangsmikilli áróðursherferð og tölvuinnbrotum til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar þar árið 2016 með það fyrir augum að hjálpa Donald Trump að ná kjöri.


Tengdar fréttir

Komu sér hjá því að rannsaka afskipti Rússa af breskum kosningum

Bresk stjórnvöld „forðuðust gagngert“ að rannsaka afskipti Rússa af þjóðaratkvæðagreiðslum um aðild Bretlands að Evrópusambandinu og sjálfstæði Skotlands samkvæmt nýrri þingmannaskýrslu um aðgerðir Rússa til að hafa áhrif á bresk stjórnmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×