Íslenski boltinn

Arnar Grétarsson: Fyrsta upplegg var að halda hreinu

Ísak Hallmundarson skrifar
Arnar Grétarsson þjálfari KA.
Arnar Grétarsson þjálfari KA. vísir/stefán

FH og KA gerðu markalaust jafntefli í Pepsi Max deildinni í kvöld, en bæði lið hafa nú haldið hreinu í tveimur leikjum í röð.

,,Fyrsta upplegg var að halda hreinu en markmiðið var að setja mark, við ætluðum að koma hingað og taka öll þrjú stigin. En ég held við getum alveg verið sáttir með stig miðað við hvernig leikurinn spilaðist. FH var mun meira með boltann en kannski án þess að skapa sér einhver alvöru færi.

Við fengum í rauninni besta færið í fyrri hálfleik. Almarr fékk skallann í alveg gjörsamlega opnu færi. Annars var leikurinn frekar lokaður og það býr mun meira í liðinu þegar við höfum boltann, við vorum svolítið stressaðir á boltanum og það er eitthvað sem menn vonandi rífa fljótt úr sér og verði klárir að gera betur í næsta leik,‘‘ sagði Arnar Grétarsson þjálfari KA í viðtali eftir leik.

KA hefur haldið hreinu í fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Arnars.

,,Ég hef alltaf lagt áherslu á það, allstaðar sem ég hef verið, að það er auðveldara að vinna knattspyrnuleiki með því að halda hreinu. Maður vill samt halda boltanum meira og skapa meira fram á við, við gerðum ekki nóg af því í dag. Komum okkur oft í ágætisstöður en vantaði svolítið upp á sóknarlega, það er eitthvað sem við þurfum að vinna í.‘‘

,,Við tökum eitt skref í einu, ég ætla ekki að koma með neinar yfirlýsingar, við tökum næsta leik og ég veit það er klisja, en það er bara næsti leikur og vonandi náum við þremur stigum þar,‘‘ sagði Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×