Innlent

Braust inn í heilsugæslu í Breiðholti

Sylvía Hall skrifar
Brotist var inn í heilsugæslu í Breiðholti í nótt.
Brotist var inn í heilsugæslu í Breiðholti í nótt. Vísir/Vilhelm

Fimm voru vistaðir í fangageymslu í gærkvöldi og í nótt vegna mála sem komu inn á borð lögreglu. Alls voru 52 mál bókuð frá því klukkan 17 í gær til klukkan fimm í nótt.

Um klukkan tvö í nótt barst lögreglu tilkynning um innbrot í heilsugæslu í Breiðholti. Lögregla handtók þann sem grunaður er um innbrotið á vettvangi og var hann vistaður í fangageymslu vegna málsins.

Annað útkall var í Breiðholti í gærkvöldi vegna manns sem var í annarlegu ástandi utandyra. Nokkrar tilkynningar bárust lögreglu vegna þessa, en maðurinn var ber að ofan, öskrandi og æpandi samkvæmt atvikalýsingu úr dagbók lögreglunnar. Maðurinn fannst að lokum og var hann vistaður í fangageymslu þar til ástand hans lagast.

Rétt fyrir klukkan hálf sjö í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í verslun í miðbæ Reykjavíkur. Tveir menn voru handteknir á vettvangi og vistaðir í fangageymslu vegna málsins.

Fimm ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Fíkniefni fundust á þremur, en öllum var sleppt að lokinni sýnatöku að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×