Kínverjar hafa skipað Bandaríkjamönnum að loka ræðisskrifstofu sinni í kínversku borginni Chengdu, en spennan milli ríkjanna fer nú vaxandi dag frá degi.
Ákvörðun Kínverja er viðbragð við þeirri ákvörðun Bandaríkjamanna að loka ræðisskrifstofu Kínverja í Houston fyrr í vikunni, sem þeir sögðu vera gert til þess að fyrirbyggja njósnir og hugverkastuld. Að auki segja Bandaríkjamenn að vísindakona, sem eftirlýst er fyrir iðnaðarnjósnir, feli sig á ræðisskrifstofu Kínverja í San Francisco.
Konan sem nú er sögð fela sig á ræðisskrifstofunni heitir Juan Tang og stundaði líffræðirannsóknir við Kaliforníuháskóla.
Bandaríkjamenn hafa sakað Kínverja um að senda dulbúna vísindamenn úr röðum kínverska hersins til Bandaríkjanna.
Ræðisskrifstofan í Chengdu var opnuð árið 1985 og þar starfa nú um 200 manns. Hún er talin mikilvæg pólitískt séð, ekki síst vegna nálægðar Chengdu við sjálfstjórnarsvæðið Tíbet.